Virðing fyrir sögunni og staðreyndum
Í ljósi þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað í Morgunblaðinu og víðar undanfarnar vikur um fornminjar á Landssímareitnum, þá þykir mér mikilvægt að benda á nokkrar staðreyndir um rannsóknina, rannsóknarsvæðið og Víkurkirkjugarð. Ég vil taka fram í upphafi, að uppgreftri lauk í júní 2017 og er úrvinnslu- og rannsóknarvinna því nýhafin. Eins og ég hef nefnt all oft áður voru minjarnar sem þarna voru, verulega raskaðar, og því flókið verk og jafnvel ómögulegt að setja þær í samhengi. Samhengi hlutanna þarf að vera til staðar þegar meta á eðli og umfang fyrri mannvistar er legið hafa i jörðu í árhundruð, í þær skorið, þær fjarlægðar, rutt til og jafnvel settar í uppfyllingarlög yngri framkvæmda. Þetta er veruleikinn á Landssímareitnum líkt og víða annarsstaðar í miðbæ Reykjavíkur. Þar sem umræðan undanfarið hefur að mestu verið um þær heiðnu minjar er þarna voru í jörðu áður en Víkurkirkjugarður var stofnsettur (sem margir telja að hafi verið á 11. öld, þó ekki sé vitað með vissu), vil ég koma tvennu á framfæri. Í fyrsta lagi, komu mannvistarleifar í ljós sem samkvæmt gjóskulagagreiningu eru frá 9. eða 10.öld, vorið 2016. Þetta kom ekki á óvart og var við að búast. Við sem að verkinu komu sem og Minjastofnun, ræddum um framvindu rannsóknarinnar frá upphafi. Var öllum ljóst að ef tilefni þætti til að þá skildi framkvæmdum hætt þar sem við ætti, til dæmis ef í ljós kæmi Kirkjugarðurinn og þá í þeirri von, órofinn. Fljótlega kom í ljós að ástand hans var afar slæmt og því ákveðið að rannsókn skildi haldið áfram. Er á rannsóknina leið komu í ljós þau mannvistarlög sem áður voru nefnd og aldursgreind eru aftur til 9. eða 10.aldar, eða frá þeim tíma er heiðin trú ríkti á Íslandi. Minjar frá upphafi landnáms hafa fundist í flest öllum fornleifarannsóknum sem gerðar hafa verið í Kvosinni og hefur ástand þeirra oft verið verulega slæmt vegna seinni tíma framkvæmda. En m.a. vegna þess hversu brotakenndar þær voru á Landssímareitnum líkt og yngri mannvist, var ómögulegt að sjá samhengi þeirra, umfang og eðli. Í öðru lagi, þá voru öll mannvistarlög fjarlægð í rannsóknarferlinu til þess að eiga m.a. þann fræðilega möguleika að kanna hvers eðlis mannvistarlögin voru. Ítarrannsóknir á sýnum geta varpað ljósi á þær minjar sem eftir voru í jörðu en því miður eru minni líkur en meiri að svo verði. Staðreyndin er nefnilega sú að í jörðinni voru sundur skornar minjar. Að púsla þeim saman með greiningum og túlkunum er, og mun ætíð verða fræðilegt þrætuepli. Þessi staðreynd hryggir mig mjög en hún er staðreynd engu að síður. Þær greiningar sem gerðar verða á þeim sýnum er tekin voru, munu kannski svara einhverjum spurningum sem brenna á mönnum í dag, en það er óraunhæft að ætlast til þess að hægt sé að fullyrða, hvað þá sanna það sem þarna var. Við erum því miður ekki það lánsöm að eiga hér í miðbæ Reykjavíkur alls ósnertar minjar frá fyrri tíð. Við höfum líkt og tímarnir sanna, byggt í sömu spor í 1200 ár, úr bæ í borg.
Rannsóknir og nýjar uppgötvanir
Ég tel mig vera heppna að hafa fengið það tækifæri að rannsaka stóran hluta af miðbæ Reykjavíkur síðastliðinn 10 ár. Þar á meðal er hinn svokallaði Alþingisreitur sem liggur á milli Vonarstrætis og Kirkjustrætis, Landssímareiturinn sem liggur frá Thorvaldsenstræti að Fógetagarðinum austanverðum og frá Fógetagarðinum norðanverðum að Vallarstræti. Í flestum tilfellum hafa minjarnar verið fjarlægðar, þ.e. sagan sem býr í jörðinni er grafin upp í þeim tilgangi að afla upplýsinga um fortíðina og hún skrásett með nákvæmum hætti. Þessar rannsóknir hafa aukið, svo um munar, þekkingu okkar á fortíðinni hvernig sem á hana er litið og má t.a.m. nefna: búskaparhætti, efnahagsástand, lífsviðurværi, heilsufar, samskipti, búsetuþróun, trúarhætti, sjávarhætti og samgöngur. Þessi vitneskja er að mínu viti ómetanleg. Staðreyndin er samt sem áður sú að eftir því sem neðar er farið í jörðina þá þarf að fjarlægja það sem yngra er. Sú vitneskja sem fæst úr mannvistarlögum og mannvirkjum frá elstu tíð, er ekki fengin á stað sem miðborg Reykjavíkur sem víðar, nema fjarlægja yngri mannvist. Ég skil vel að sú staðreynd er umdeilanleg og hápólitísk en hún er samt sem áður óumflýjanleg í því ljósi að við höfum hér byggt, mann af manni í 1200 ár.
Við getum ekki breytt fortíðinni
Nútími hverrar kynslóðar er oft snúinn, tíðarandinn sem ríkir hverju sinni er einstakur. Það sem áður var gert er oft erfitt að skilja, því þurfum við að gagnrýna fortíðina eða hrósa með hógværð og eins upplýst og mögulega er hægt. Við munum alltaf geta sagt ef og hefði, eða við vitum betur, jafnvel reynt að breyta fortíðinni með túlkunum ríkjandi strauma, en slíkt tel ég vera yfirlæti og í raun ósanngjarnt. Það sem við getum þó reynt í hvívetna er að læra af sögunni og virða það sem vel var gert og það sem betur hefði mátt fara. Við skoðun heimilda kemur fljótt í ljós að í Víkurkirkjugarði hefur verið framkvæmt nær óslitið síðan 1715 og líklegast mun fyrr, en ágætis heimildir eru fyrir þeim framkvæmdum er gerðar voru í tíð Skúla Magnússonar forstjóra Innréttingana er byggðu hér verksmiðjur fram á miðja 18. öld. Á þessum tíma er íveruhús Skúla fógeta reist við norðvesturhorn
Kirkjugarðsins, það var rifið 1902 og Aðalstræti 9 reist. Aðalstræti 11 sem oft er nefnt hús Schierbecks og var landlæknir hér á landi frá 1880 til upphafs 20. aldar. Schierbeck reisti hús sitt þar sem Fógetagarðurinn er í dag næst gamla Landssímahúsinu.
Töluvert áður eða um 1830 var lóðin þar sem nú er horn Thorvaldsenstrætis og Kirkjustrætis, veitt fyrir íveruhús lyfsalans og á árunum 1830-1832 reisti lyfsalinn lyfjagerð og bakhús er náðu að Fógetagarðinum austanverðum eins og hann stendur í dag.
Þessar framkvæmdir sem taldar eru upp hér að ofan eru því miður ekki tæmandi. Víkurkirkjugarður hefur því ekki fengið þá virðingu sem skyldi, syndir feðranna eru margar, við bætum þær aldrei, en við getum reynt að bæta fyrir það sem aflaga fór. Að sópa því undir teppi sem við blasti á þeim 35 fm sem inn á Landssímareitinn náðu, væri vanvirðing við þá sem þar hvíldu. Þess í stað var tekin fagleg ákvörðun að greina það sem fyrir var og halda rannsókn áfram.
Árin frá 1950-1975 eru merkileg í ljósi þess að þá voru fjarlægðar grafir og legsteinar manna og kvenna er síðust voru jarðsett í Víkurkirkjugarði auk legstaðar Angelinu Krüger. Hún var eiginkona lyfsalans sem svo sorglega endaði sitt eigið líf árið 1882 eftir erfiðar barnsfarir. Barnið hennar lést í byrjun árs 1883 og fékk að hvíla hjá móður sinni.
Þessi gröf var síðasta gröfin sem tekin var í hinum forna Víkurkirkjugarði, en var rutt í burtu árið 1967 er nýja Landssímahúsið reis, en engar heimildir eru fyrir því eða hvað um minninguna varð. Þetta er þó vitað: Grafarsteinn Gunnlaugs Oddssonar dómkirkjuprests var fjarlægður úr Fógetagarðinum 1972, leiði Geirs hins Góða og Gunnlaugs voru fjarlægð 1967, jarðneskar minjar ásamt Járn- og minningarhellum Espolins, sona hans og konu ásamt fleirum voru fjarlægðar við framkvæmdir við gerð Landssímahúsana beggja frá árunum 1930-1967. Þetta eru staðreyndir.
Gerum sögunni hátt undir höfði
En nú vil ég ræða um uppbyggingu og samstöðu okkar á milli. Í ljósi þeirra minja sem fundist hafa í miðborg Reykjavíkur undanfarna áratugi, í flestum tilfellum vegna framkvæmda, þykir mér upplagt að heildstæð stefna og áætlun verði gerð af hálfu ríkis og borgar til þess að miðla þessari merku sögu. Ég kalla því á samvinnu þeirra á milli, til þess að sýna í verki, að þó svo við höldum áfram að byggja á gömlum merg að þá muni minni þeirra sem byggðu grunninn vera gert hátt undir höfði. Ég legg til að hin merka 1200 ára búsetusaga Reykjavíkur í allri sinni dýrð, óháð titlum, trú eða stéttaskiptingu, fái að birtast með virðingu og veglegum hætti í Fógetagarðinum eins og hann stendur í dag. Fógetagarðurinn er jú það torg sem hvílir á sögu Reykjavíkur frá upphafi, og er nú þegar vel sóttur af
bæði gestum og gangandi. Þarna í hinum gamla Víkurkirkjugarði hvíla forfeður og formæður í mismiklum friði. Þarna voru kannski Skálar, smiðjur, sofnhús, grafir, fjós, kuml eða blóthús um 850- 1000 e.kr. og heimildir benda á kirkjur, bænhús, prentsmiðju, verslun, embættisbústaði, skrúðgarð, bragga, apótek, lyfjagerð, kamra, brunna, símastrengi, kapla, dren, ræsi, hitaveitu og ljósleiðara – þetta er allt okkar saga. Hættum að karpa og gerum allri sögunni hátt undir höfði, því hvar sem litið er milli sjávar og Tjarnar er sagan sem er, en aldrei var skrifuð.
Virðingarfyllst,
Vala Garðarsdóttir, fornleifafræðingur og uppgraftarstjóri á Landssímareitnum 2016-2017