Fjármögnun lokið

Fjármögnun uppbyggingar á Landssímareitnum í miðborg Reykjavíkur er lokið með útgáfu nýs skuldabréfaflokks. Útgefandi skuldabréfaflokksins og eigandi Landssímareitsins er Lindarvatn ehf. sem er í jafnri eigu Icelandair Group hf. og Dalsness ehf. Íslensk verðbréf voru umsjónaraðili skuldabréfaútgáfunnar og miðlaði henni ásamt RU ráðgjöf ehf. til fjárfesta. Lindarvatn hefur leigt stóran hluta reitsins til Icelandair Hotels sem mun opna Iceland Parliament hótel þar undir merkjum Curio by Hilton. Auk þess verða verslanir, veitingastaðir og íbúðir á reitnum.

„Fjármögnun Lindarvatns sýnir fram á styrk Íslenskra verðbréfa og viðskiptavina félagsins til að koma að heildarfjármögnun fyrirtækja og verkefna með markaðsfjármögnun á samkeppnishæfum kjörum og þannig verið drifkraftur þegar kemur að heildarfjármögnun þeirra,“ er haft eftir Sigþóri Jónssyni, framkvæmdastjóra Íslenskra verðbréfa, í tilkynningu.

„Við erum ánægðir með fagleg vinnubrögð Íslenskra verðbréfa við fjármögnun Lindarvatns vegna uppbyggingar Landssímareits. Verkefnið krafðist ákveðins sveigjanleika sem tengist framkvæmdum á svæðinu á næstu árum og náðu Íslensk verðbréf ásamt fjárfestum að leysa það með góðum hætti og á sanngjörnum kjörum,“ er haft eftir Davíð Þorlákssyni, framkvæmdastjóra Lindarvatns ehf.