NASA opið í sumar

Inga, oftast kennd við NASA, hefur leigt NASA við Austurvöll af Lindarvatni ehf., undir tónleikaröð sem hún mun standa fyrir í sumar. Inga rak NASA í á annan áratug og er því öllum hnútum kunnug þar. Hún hefur fengið Sonik til
að sjá um öll tæknimál í húsinu.

Meðal þeirra sem hafa boðað komu sína eru: Páll Óskar, Quarashi, Úlfur Úlfur, Emmsjé Gauti, Agent Fresco og Skálmöld. Þá mun EM verða sýnt í beinni í salnum og hefjast útsendingar með leik Íslands og Portúgal þriðjudaginn 14. júní.

Eins og tilkynnt hefur verið hefur Lindarvatn ákveðið að endurbyggja salinn í upprunalegri mynd. Framkvæmdir í húsinu munu hefjast í haust og er gert ráð fyrir að þeim ljúki í árslok 2017. Arkitektar eru að vinna út frá myndum sem teknar voru af salnum þegar hann var tekinn í notkun um miðja síðustu öld.

Framkvæmdar voru hljóðmælingar þar í fyrra sem sýna að hljóðeinangra þarf salinn betur. Útlit salarins verður því upprunalegt en hönnun hans að öðru leyti í samræmi við nútímakröfur, m.a. um hljóðvist. Þannig verður tryggt að NASA verði áfram skemmtilegasti tónlistarsalur landsins.