Í ljósi sögunnar

Vala Garðarsdóttir Vala Garðarsdóttir

Frá upphafi landnáms hefur verið blómlegt mannlíf í Reykjavík. Fyrstu landnemarnir í Kvosinni lögðu grunninn að okkar samfèlagi sem á sér nú nær óslitna sögu í um 1200 ár. Á þessum tíma, er heilsársbúseta hófst í Reykjavík, var umhverfið og landslagið gjörólíkt því sem við þekkjum í dag. Má segja að landið og umhverfið hafi verið kjörið til landnáms er menn festu rætur endanlega, og má segja að svo sé enn, þó umdeilanlegt sé sem ætíð.

Undanfarin 9 ár hef ég rannsakað upphaf og þróun landnáms í Reykjavík, það sem er áhugaverðast í þeirri samfélagsþróun sem á sér stað í Kvosinni frá upphafi 9.aldar fram á miðja 13.öld, er hversu ört samfélagið breytist og hversu mikil þekking er til staðar þá sérstaklega fjölbreytt og rík verkmenning. Eftir að hér hafði verið stunduð árstíðabundin búseta töluvert fyrir 870 e.kr, hófst hér varanleg búseta um það leiti sem Veiðivatnagosið átti sér stað um 870 (+/- 2 ár).

Nytjar voru hér með eindæmum aðgengilegar og sá efniviður og landslag er samfélagsgerð Víkingaaldar þótti eftirsóknarverð, var hér til staðar. Það sem hefur eflaust skipt sköpum var aðgengið frá ströndinni upp ána og í Tjörnina. Þar sem nú er Lækjargata var á og þar sem nú eru gatnamót Hverfisgötu og Lækjargötu var ósinn. Tjörnin var fersk á þessum tíma og því kjörið að leggja bátum bæði í var og hvað þá að geta lagt þeim allan ársins hring, því ekki verður viðurinn ormétinn í fersku vatni. Þar hefur gengið inn silungur og aðrir ferskvatnsfiskar, mýrlendi víða í næsta nágrenni þar sem byggingarefni, eldsneyti og það sem mikilvægara var, Mýrarrauði til járnvinnslu var til staðar, heitt vatn, holtagrjót, birkiskógur, stutt á fiskimiðinn, egg, fugl og dún í eyjum við Sundin svo ekki sé minnst á gott beitiland og veðursæld í Kvosinni. Má segja að þessar kjör aðstæður hafi átt veigamikinn þátt í því hversu veglegt landnámið var strax í upphafi.

Uppbygging og rannsóknir

En eins og flestir gera sér grein fyrir að þá fylgir uppbyggingu, þróun og framförum, breytingar. Breytingar fara misvel í fólk, sem er hið eðlilegasta mál.

En hvernig við höldum utan um þær breytingar sem fylgir byggðarþróun almennt, hvar sem er á landinu, skiptir öllu máli.
Minjavernd hér á Íslandi hefur t.a.m. styrkst mjög mikið á undanförnum árum og er löggjöfin skýr er stofnanir vinna eftir sem sjá um málefni náttúru- og menningararfs okkar Íslendinga.

Aukin lífsgæði sem við í nútímasamfélagi gerum kröfur til eru gjarnan á kostnað fyrri mannvirkja eða náttúruminja. Því skal vanda og þaulhugsa þau verk vel sem munu raska fyrri mannvist eða náttúruminjum. Hvort sem um er að ræða virkjanir, lagningu ljósleiðara og annarra jarðstrengja, vega, ganga eða niðurrif eldri húsa. Þessi arfur okkar er óafturkræfur í þeirri mynd sem hann stendur og því mikilvægt að þekkingin og vitneskjan um horfin tíma sitji eftir. Ef vel er að verki staði að þá munu rannsóknir varpa skýrara og jafnvel nýju ljósi á fyrri tíð og menningu eins og raun ber vitni og við sem menningarþjóð drögum lærdóm af, tileinkum okkur nýjar upplýsingar og verðum upplýstari fyrir vikið á svo marga vegu.

Rannsóknir í Reykjavík sem á landinu öllu

Við Íslendingar, umfram aðrar þjóðir erum það heppin að eiga í okkar handritum ómetanlegan arf. Þessi arfur og vitneskjan um tilvist hans hefur mótað okkar þjóðarsál. Hvernig sem við lítum á eða túlkum þennan einstaka menningararf sem einstaklingar, þá er birtingarmynd okkar sem ein þjóð komin af þeim sögum og sögnum.

Sú þekking sem hlotist hefur vegna rannsókna á sögufrægum-, sem minna þekktum svæðum undanfarna áratugi, hefur leitt í ljós staðreyndir sem áður voru óþekktar, þessar rannsóknir eru ómetanlegar fyrir okkar menningararf ekki bara í nútíð heldur sérstaklega til framtíðar. Rannsóknir í Reykjavík hafa margar hverjar orðið fyrir tilstillan framkvæmda og hafa þessar rannsóknir varpað nýju ljósi á þróun byggðar í Reykjavík frá upphafi, líkt og ég nefndi hér á undan. Þessi vitneskja hefði aldrei komið til nema vegna þessa. Minjaverndin í landinu með Minjastofnun fremsta í flokki hefur orðið til þess að undirbúningur framkvæmda skal ætíð taka mið af fyrri mannvist og því ekki veitt framkvæmdaleyfi nema að undangenginni rannsókn og þegar tilefni þykir til þá hefur Minjastofnun það vald að friða svæði með tilliti til mikilvægi þeirra.

Fornleifarannsóknir á Landssímareitnum

Fornleifarannsóknir á Landssímareitnum

Búsetuþróun og ört vaxandi þéttibýlismyndun í miðbæ Reykjavíkur frá síðmiðöldum hefur orðið til þess að eldri mannvirki hafa vikið fyrir þeim nýju, kynslóð eftir kynslóð. En í nútíma erum við mun meðvitaðri um varðveislu okkar fornminja.
Fornleifauppgreftrir snúast í eðli sínu um það að fjarlægja þá mannvist sem til rannsóknar er með vísindalegum aðferðum. Eftir stendur þekking sem líkt og áður sagði, hefur og getur varpað nýju ljósi á okkar sögu, búskaparhætti, byggðarþróun, heilsufarsástand, samgöngur, samskipti, útflutning, innflutning, efnahagsástand, verkmenningu og svo mætti lengi telja.

Víkurkirkjugarður

Aðalstræti 11, hús Schierbecks landlæknis, og skrúðgarður hans (sem nú er Fógetagarðurinn).

Aðalstræti 11, hús Schierbecks landlæknis, og skrúðgarður hans (sem nú er Fógetagarðurinn).

Þar sem nú fer fram fornleifarannsókn á Landssímareitnum svokallaða, (sem áður var bílastæði fyrir framan viðbyggingu Landssímahússins sem reist var 1967), er mikilvægt átta sig á bæði forsögu þessa hluta Reykjavíkur sem ég nefndi hér að ofan, sem og þeim upplýsingum sem til staðar voru áður en rannsóknin hófst. Saga Víkurkirkjugarðs er löng, í raun veit engin hvenær fyrsta kirkjan var stofnuð né hvenær kirkjugarðurinn var tekin í notkun, en hægt er að leiða sterk rök fyrir því að Víkurkirkja hafi verið stofnuð undir lok 11. aldar. Næstaelsta heimildin sem við höfum um Víkurkirkju er Máldagi frá 1379, þar er ekki getið um staðsetningu hennar frekar, né íburði og því erfitt að geta sér frekar til um það. Þó hefur alla tíð verið vitað að þarna, þar sem nú er Fógetagarðurinn, hafi Víkurkirkja staðið. Í Máldögum og Visitasíum eftir 14.öldina er þó hægt að lesa um efni, ítök, presta, biskupa og söfnuð Víkurkirkju. Samkvæmt heimildum var Víkurkirkja vígð af Stefáni Jónssyni næstsíðasta kaþólska biskupnum í Skálholti árið 1505. Kirkjan var endurgerð árið 1720 og sú kirkja síðan rifin undir lok 18.aldar, þegar hafist var handa við að reisa nýja dómkirkju 1787 en endurbyggð 1848.

Kirkjugarðurinn var svo aflagður 1838 og fluttur að Suðurgötu. En vitað er til þess að grafið var í garðinn með undantekningum til 1883. Frá lokum 18.aldar hafa allmörg hús staðið þar sem nú er hinn svokallaði Landssímareitur. Flest þeirra húsa tengdust tíð lyfsalans og apóteksins og bakhúsum er þeim tilheyrðu. Árið 1883 fékk Shierbeck landlæknir, núverandi Fógetagarð til leigu og gerði þar skrúðgarð með tilheyrandi ræktun á jurtum og trjám. Hann reisti þar einnig íveruhús þar sem nú er norðurhluti garðsins sem og veglega girðingu.

Íveruhús lyfsalans á horni Kirkjustrætis og Thovaldsensstrætis frá 1830, sem brann 1882 og var endurbyggt eftir sömu teikningu. Húsið snéri að Austuvelli og það og bakhúsið stóðu þar sem áður var bílastæði við Landssímahúsið og þar sem nú standa yfir fornleifarannsóknir.

Íveruhús lyfsalans á horni Kirkjustrætis og Thovaldsensstrætis frá 1830, sem brann 1882 og var endurbyggt eftir sömu teikningu. Húsið snéri að Austuvelli og það og bakhúsið stóðu þar sem áður var bílastæði við Landssímahúsið og þar sem nú standa yfir fornleifarannsóknir.

Árin 1830, 1882 og 1915 eru síðan íverhús, vöruskemma og lyfjaverkstæði apóteksins reist við Kirkjustræti þar sem nú er hluti rannsóknarinnar á Landssímareitnum, voru þessar byggingar með kjallara.

Þegar Landssímahúsið er reist árið 1932 með tilheyrandi framkvæmdum er Fógetagarðurinn opnaður að hluta og símastrengir lagðir í gegnum hann þveran og segja menn að “mergð mannabeina” hafi komið upp við þessa aðgerð srm og legsteinar. Einnig var vegur lagður að Landssímahúsinu við þessar framkvæmdir, eða svokölluð akbraut. Þegar herinn kemur til landsins og yfirtekur Landssímahúsið eiga sér stað enn frekari framkvæmdir sem vel sjást í jörðinni og það sama má segja um þá framkvæmd sem átti sér stað við viðbyggingu Landssímahússins 1967 og undirbúningur þess árið á undan. Þá átti sér stað töluvert mikið jarðrask og var hluti kirkjugarðsins fjarlægður í þeirri framkvæmd eins og vel sést við núverandi rannsókn.
Að auki þessum framkvæmdum hafa átt sér stað endurnýjun lagna, háspennustrengja, brunna og fráveitur ásamt ljósleiðaralagningu nú ekki alls fyrir löngu.

Thorvaldsensstræti 4 (þar sem nú er Landssímahúsið) og Thorvaldsensstræti 2 (gamli Kvennaskólinn, nú NASA).

Thorvaldsensstræti 4 (þar sem nú er Landssímahúsið) og Thorvaldsensstræti 2 (gamli Kvennaskólinn, nú NASA).

Allar þessar framkvæmdir sem hér á undan eru nefndar hafa raskað gamla og nýja Víkurkirkjugarði all verulega.
Að þessu sögðu langar mig til þess að segja að rannsóknin sem á sér stað nú þar sem áður var bílastæði Landssímahússins hefur varpað enn betra og nýju ljósi á sögu og þróun Víkurkirkjugarðs sem og upphaf byggðar.
Erfitt var sjá það sem við blasti undir malbikinu eftir allt það mikla jarðrask frá fyrri tíð. En frá upphafi höfum við verið í samvinnu við Minjastofnun vegna þessa, enda með rannsóknarleyfi veitt af þeim og ekkert gert nema með þeirra samþykki sem eðlilegt er.

Fyrra jarðrask og framkvæmdir höfðu fjarlægt og rutt til því sem þarna var, og á sú staðreynd því miður einnig við í Fógetagarðinum sjálfum.

En þar eigum við góðan stað til þess að minnast og halda í hávegum minni Víkurkirkju og Kirkjugarðs og þeirra sem þar voru jarðsettir, jafnvel að endurreisa þann Minningarvegg er rifinn var niður 1967 um kirkjugarðinn.
En þær upplýsingar sem nú koma til vegna rannsóknarinnar á Landssímareitnum munu án efa vera miðlað þar og gefa þeim sem um garðinn ganga sem annarsstaðar innsýn um þá sem á undan okkur gengu, með allri virðingu.

Með Virðingu,
Vala Garðarsdóttir
fornleifafræðingur og uppgraftarstjóri á Landssímareitnum

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. apríl 2016.