„Það var brotin upp útihurðin með öxi“

Landssímahúsið gengur bráðum í endurnýjun lífdaga. Húsið á sér merkilega sögu, en áður fyrr var þar miðstöð allra fjarskipta í landinu. Ríkisútvarpið, Póstur og sími auk Veðurstofunnar voru þar öll til húsa.

Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur, segir frá því þegar breskir hermenn brutust inn í húsið um miðja síðustu öld: „Þeir komu hér snemma morguns, eða eiginlega um miðja nótt, að Landssímahúsinu. Þar var náttúrulega allt læst og lokað. Það var brotin upp útihurðin með öxi. Síðan gengu þeir upp og brutu upp hurðir, hvar sem þeir komu að,“ segir Guðjón.

Hann bætir við: „Að lokum kom nú húsvörður og spurði hvort þeir vildu ekki frekar nota lykla, hann var með lyklakippu. Þeir sönsuðust nú á það, en þeir vissu ekki betur en að það yrði veitt mótspyrna. Þetta var hernám.“